Um Kvartmíluklúbbinn

Kvartmíluklúbburinn var stofnaður 6. júlí 1975 og var stofnfundurinn haldinn fyrir fullu húsi í ráðstefnusal Hótel Loftleiða. Strax þetta sama ár fór klúbburinn að halda bílasýningar og sandspyrnukeppnir. Sandspyrnurnar voru haldnar að Hrauni í Ölfusi og mættu þar allir helstu spyrnubílar landsins ásamt miklum fjölda áhorfenda.

Sýningarnar voru fyrst haldnar útivið en fljótlega voru þær fluttar inn og þá í laugardalshöllina og síðar í Sýningarhöllina (nú Húsgagnahöllin/Krónan/Intersport). Á þessum árum 1975 til 1979 var verið að undirbúa byggingu keppnisbrautar, og fór ágóðinn af sýningunum í sjóð til að standa straum af byggingu brautarinnar. Reykjavíkurborg úthlutaði Kvartmíluklúbbnum lóð við spennistöðina á Geithálsi, og var farið að mæla út fyrir braut þar. Það kom hins vegar fljótlega í ljós að mjög dýrt yrði að byggja braut á þessum stað vegna þeirra umfangsmiklu jarðvegsskipta sem þyrftu að fara fram.

Þegar þetta kom í ljós þá var þegar farið að leita að öðrum stað til að byggja braut á. Það endaði síðan á því að klúbburinn gerði samning við Skógrækt Ríkisins sem átti land í Kapelluhrauni sunnan Hafnarfjarðar. Áður en byrjað var á byggingu brautarinnar þurfti meðal annars að athuga með grunnvatn í nágrenninu vegna hugsanlegrar mengunar, og var Jón Jónsson jarðfræðingur fengin til að meta þann þátt. Eftir að hann hafði gefið grænt ljós gáfu bæjaryfirvöld í Hafnarfirði líka grænt ljós á byggingu brautarinnar.

Hafist var handa við bygginguna 1978 og var það verktakafyrirtækið Aðalbraut sem sá um vinnuna. Lokið var síðan við lagningu brautarinnar 1979 og var fyrsta keppni áætluð 28 október sama ár. Ekkert varð þó af henni þar sem að morgni þess 28 október var 20cm jafnfallinn snjór yfir öllu og þar með var að fresta þessu til næsta vors. Það var síðan vorið 1980 sem brautin var formlega opnuð og byrjað var að keppa á henni, en þá var hún eina sérbyggða spyrnubrautin í Evrópu.

Þann titil ber hún ennþá að vera fyrsta sérbyggða spyrnubraut Evrópu. Kvartmíluklúbburinn hefur frá stofnun haldið úti félagsheimili þar sem menn hafa getað komið saman og spjallað. Klúbburinn hefur haldið íslandsmeistarakeppnir frá árinu 1980 til dagsins í dag. Keppt er í mörgum bíla og hjólaflokkum. Meðlimir eru núna árið 2010 um 1000 talsins. Á síðustu árum hefur gríðarleg uppbygging verið á svæði klúbbsins og er þar komið 160 fm félagsheimili auk bættrar aðstöðu fyrir keppendur og áhorfendur.

Markmið Kvartmíluklúbbsins og slagorð hefur alltaf verið „Hraðakstur af götunum og á inn á lokuð svæði“

Kvartmíluklúbburinn er í aðili að Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar og Akstursíþróttasambandi Íslands.

Vefslóð: www.kvartmila.is
www.facebook.com/kvartmila

Bankaupplýsingar

Bankareikningur klúbbsins er númer 544-26-111199 og kennitalan okkar er 660990-1199.

Nánari upplýsingar

Fullt nafn: Kvartmíluklúbburinn
Kennitala: 660990-1199
Pósthólf 16
222 Hafnarfjörður

Shopping Cart