Yfirlýsing frá BA, START og KK

Að gefnu tilefni viljum við undirritaðir akstursíþróttaklúbbar koma eftirfarandi á framfæri.

Torfærusumarið 2022 fór vel af stað með tveimur keppnum síðastliðna helgi. Þær voru báðar í beinni útsendingu sem mæltist vel fyrir. Bragi Þórðarson hefur leitast eftir því að senda beint frá þeim torfærukeppnum sem eftir eru í sumar en lagt upp með forsendur sem eru ekki ásættanlegar fyrir okkur keppnishaldarana. Við hyggjumst því ekki kaupa af honum þá þjónustu sem hann hefur boðið okkur. Umfjöllun um keppnirnar í Ríkissjónvarpinu er þar að auki skilyrt greiðslum frá klúbbunum af hálfu Braga svo óvíst er hvort sú umfjöllun sem verið hefur þar síðastliðin ár mun verða í boði í sumar.

Við viljum öll veg torfærunnar sem mestan og erum mjög samstíga í því að tryggja að myndefni af öllum keppnum sé aðgengilegt og helst til birtingar án þess að áhorfendur þurfi að greiða klúbbunum eða fyrirtækjum fyrir það sérstaklega. Með það að markmiði bjóðum við velkomna bæði ljósmyndara og videotökufólk á allar keppnirnar sem fá að taka upp sitt efni endurgjaldslaust. Þar með talið fulltrúa sjónvarpsstöðvanna hafi þeir áhuga á því að fá sitt eigið efni til birtingar.

Þetta eru aðilar sem gera keppnunum mjög góð skil og hafa þekkingu á því sem þau eru að gera og standa mjög vel að myndatökunni, eftirvinnslunni og birtingu. Efninu fylgja að auki engar kröfur frá okkur á hendur þeim sem það framleiðir aðrar en að það sé gert aðgengilegt og notað til að kynna sportið, keppendur og akstursíþróttafélögin sem að keppnunum standa.

Við gerum okkur vel grein fyrir því að það er hagur keppenda, keppnishaldara og styrktaraðila að myndefni frá íslensku torfærunni fari sem víðast. Það er öllum til hagsbóta og getur ekki annað en gert íþróttina stærri og veglegri. Við teljum hins vegar að þessum markmiðum megi vel ná þó við kaupum ekki þjónustu þriðja aðila fyrir beina útsendingu frá keppnunum. Þá er ekki síður mikilvægt fyrir þessa sömu aðila og sjálfboðaliðana okkar að keppnirnar séu vel sóttar af áhorfendum. Það hvetur íþróttafólkið til dáða og er stór þáttur í vel heppnuðu keppnishaldi.

Það er því markmið okkar að standa vel að allri umgjörð og kynningu torfærunnar bæði fyrir og eftir keppnirnar. Með góðri aðstöðu fyrir áhorfendur, skipulegu og faglegu keppnishaldi og vel unnu myndefni að keppni lokinni erum við sannfærð um að torfærusumarið 2022 eykur veg og virðingu íþróttarinnar og allra sem að henni koma. Við hlökkum til að sjá ykkur í brekkunum og treystum því að þið njótið þess að horfa á keppnirnar hvar sem best hentar þegar ljósmynda- og videomyndatökufólkið okkar gefur út sitt efni sem öllum stendur til boða endurgjaldslaust.

Með bestu kveðju,
BA, START og KK

Shopping Cart